Handbolti

HBC Nantes í úrslit Meistaradeildarinnar í handbolta

Einar Sigurvinsson. skrifar
Kiril Lazarov í leiknum gegn PSG í dag.
Kiril Lazarov í leiknum gegn PSG í dag. getty
HBC Nantes sigraði Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar karla í handbolta með fjögurra marka mun, 32-28. Um helgina fer fram hin svokallaða „Final Four“ keppni fram og mun Nantes annað hvort leika gegn Var­d­ar eða Mont­p­ellier í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Fyrstu mínútur leiksins var mikið jafnræði með liðunum og skiptust þau á að taka forystuna. Um miðbik hálfleiksins fór Nantes þó að ná góðum tökum á leiknum og var liðið þremur mörkum yfir í hálfleik 17-14.

Leikmenn Nantes mættu síðan sterkari inn í síðari hálfleikinn. Þeir skoruðu fyrstu þrjú mörkin og náðu sex marka forystu, 20-14.

PSG tókst þó að vinna sig inn í leikinn og þegar aðeins fimm mínútur voru til leiksloka minnkuðu þeir muninn í eitt mark, 29-28. Nantes misnotaði næstu sókn sína á eftir og gafst PSG kostur á að jafn leikinn í fyrsta sinn frá því í stöðunni 6-6, en Cyril Dumoulin í marki Nantes varði skot frá danska landsliðsmanninum, Mikkel Hansen.

PSG skoraði ekki fleiri mörk í leiknum og vann Nantes því að lokum verðskuldaðan sigur, 32-28.

Markahæstu vell vallarins voru þeir Kiril Lazarov og Nicolas Tournat í liði Nantes með átta mörk. Nedim Remili var markahæstur í liði PSG með sex mörk.

Klukkan 16:00 í dag mætast Var­d­ar og Mont­p­ellier í seinni undanúrslitaleik Meistardeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×