Handbolti

PSG tók bronsið í Meistaradeildinni í handbolta

Einar Sigurvinsson skrifar
Nedim Remili, leikmaður PSG.
Nedim Remili, leikmaður PSG. getty
Paris Saint-Germain hafði betur gegn Vardar í leik liðanna um þriðja sætið í Meistaradeild Evrópu í handbolta en úrslitahelgin fer nú fram í Köln í Þýskalandi. Leiknum lauk með eins marks sigri PSG, 29-28.

Vardar byrjaði betur í leiknum og náði liðið fljótt fjögurra marka forystu, 3-7. PSG náði þó að vinna sig inn í leikinn og munaði aðeins einu marki á liðunum í hálfleik, staðan 14-15 fyrir Vardar.

Mikið jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik. Vardar skoraði fyrstu tvö mörkin og náði þriggja marka forystu en PSG voru fljótir að jafna leikinn.

Það var síðan ekki fyrr en í stöðunni 24-23 sem PSG komst yfir í fyrsta sinn í leiknum. Þá var ekki aftur snúið, PSG hélt sinni forystu og vann að lokum eins marks sigur.

Atkvæðamestur í liði PSG var Nedim Remili, hann skoraði níu mörk auk þess að gefa fimm stoðsendingar. Króatinn Luka Cindrić var markahæstur í liði Vardar með sjö mörk.

Úrslitaleikur „Final Four“ helgarinnar fer fram klukkan 16:00 í dag en þá mætast Nantes og Montpellier.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×