Handbolti

Hreiðar: Ekki útilokað að ég verði áfram hjá Gróttu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hreiðar Levý í leik með Gróttu.
Hreiðar Levý í leik með Gróttu. vísir/stefán
Markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson er sterklega orðaður við brottför frá Gróttu þessa dagana enda fjöldaflótti frá félaginu og fáir að verða eftir í herbúðum félagsins.

Hreiðar Levý er einna helst orðaður við Stjörnuna þessa dagana en hann segir alrangt að hann sé búinn að semja við félagið.

„Það er enginn fótur fyrir þeim sögusögnum,“ segir Hreiðar en hann vonast enn eftir því að forráðamenn Gróttu nái að hóa saman í lið fyrir næsta vetur.

„Ég er enn samningsbundinn Gróttu. Ég er að gefa þeim tækifæri til að setja saman hóp. Ef það verður aftur á móti ekkert lið þá er ekkert mjög spennandi að vera þarna áfram. Það er því ekkert útilokað að ég verði áfram hjá Gróttu.“

Markvörðurinn segir að önnur lið hafi verið að athuga með hann síðustu misseri en hann hefur ýtt því frá sér.

„Ég hef sagt öðrum liðum að ég sé að bíða eftir því hvað Grótta geri. Maður vill nú fara að sjá hvernig þetta á að vera fljótlega í júní. Auðvitað er fúlt að sjá á eftir öllum þessum leikmönnum. Meira að segja kjúklingarnir eru farnir frá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×