Körfubolti

Golden State er sigurstranglegasta liðið í lokaúrslitum NBA í sautján ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og LeBron James í lokaúrslitunum í fyrra.
Stephen Curry og LeBron James í lokaúrslitunum í fyrra. Vísir/Getty
NBA-meistarar Golden State Warriors tryggðu sér sæti í lokaúrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt með því að vinna sjöunda leikinn á móti Houston Rockets.

Fjórða árið í röð mætast því Golden State og Cleveland Cavaliers í úrslitaeinvíginu um NBA-titilinn. Þetta ár er þó öðruvísi en hin þrjú.  Golden State vann titilinn 2015 og 2017 en Cleveland vann 2016.

Spámenn og sérfræðingar hafa afar litla trú á liði Cleveland Cavaliers í þessum lokaúrslitum. Menn hafa líka verið duglegir að skrifa um hvernig LeBron James hafi nánast einsamall komið Cleveland liðinu í úrslitin á sama tíma og liðsmenn Golden State Warriors hafa sumir fengið á sig gagnrýni að spila ekki sinn allra besta leik.

Bandaríkjamenn eru duglegir að setja upp sigurlíkur á stundum sem þessum og veðbankarnir í Las Vegas telja að sigurlíkur Golden State liðsins séu yfirgnæfandi í þessum úrslitum sem hefjast á fimmtudaginn.

Það þarf þannig að fara sextán ár aftur í tímann til að finna lið sem var sigurstranglegra í lokaúrslitum NBA-deildarinnar.



 

Sigurlíkur Golden State Warriors í ár eru þær sömu og hjá Los Angeles Lakers á móti Philadelphia 76ers árið 2001. Philadelphia 76ers, með Allen Iverson í fararbroddi, vann óvænt fyrsta leikinn en Lakers tryggði sér titilinn með því að vinna síðustu fjóra leikina.

LeBron James hefur því aldrei mætt í lokaúrslitin með minni sigurlíkur en það vekur aftur á móti athygli að í sjö af níu lokaúrslitum James á ferlinum hafa andstæðingarnir verið sigurstranglegri hjá veðbönkum í Bandaríkjunum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×