Erlent

Hjálparhundur gaut átta hvolpum rétt fyrir flugtak

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Allt gekk vel.
Allt gekk vel. Mynd/Slökkviliðið í Tampa
Slökkviliðið í Tampa í Bandaríkjunum þurfti að hafa hraðar hendur þegar hjálparhundur sem fylgdi eigendum sínum gaut átta hvolpum á alþjóðaflugvellinum í Tampa, rétt áður en þau voru á leið um borð í flugvél.

Eigendur hundsins, móðir og dóttir hennar, voru á leið frá Tampa til Philadelphiu ásamt öðrum hjálparhundi, sem er faðir hinna nýfæddu hvolpa.

Tíkin nefnist Eleanor Rigby og er tveggja ára Labrador hundur sem fylgir eigendum sínum sem hjálpar- og leiðsöguhundur. Í frétt BBC segir að eigendurnir hafi vitað að von væri á hvolpunum en ekki gert sér grein fyrir því hversu stutt væri í gotið.

Voru þau öll tilbúin til þess að fara um borð í flugvélina á leið til Philadelphiu þegar hvolparnir vildu ólmir komast í heiminn.

Starfsmenn slökkviliðsins, sem sjá um bráðaþjónustu á flugvellinum, voru kallaðir til og brugðust þeir hratt og vel við til þess að taka á móti hvolpunum átta.

Gotið var vel skrásett á Twitter-reikningi slökkviliðsins, líkt og sjá má hér að neðan. Hundarnir, ásamt eigendum, sínum misstu af fluginu og ætla sér þess í stað að keyra til Philadelphiu, um 1.600 kílómetra leið. Öllum heilsast þó vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×