Viðskipti innlent

The Rolling Stones munu bara drekka íslenskt vatn

Sylvía Hall skrifar
Goðsagnirnar í The Rolling Stones eru að fara hefja tónleikaferðalag sitt um Evrópu seinna í mánuðinum.
Goðsagnirnar í The Rolling Stones eru að fara hefja tónleikaferðalag sitt um Evrópu seinna í mánuðinum. Vísir/Getty
Rokkstjörnurnar í The Rolling Stones eru í þann mund að leggja af stað í tónleikaferðalagið No Filter sem mun hefjast með risatónleikum í Dublin á Írlandi þann 17. maí.

Meðlimir sveitarinnar ætla að halda sér hraustum með því að drekka íslenskt vatn á tónleikaferðalaginu, en sveitin hefur gert samkomulag við Icelandic Glacial um að sjá tónleikaferðalaginu fyrir íslensku vatni sem sett er á flöskur á umhverfisvænan hátt. Icelandic Glacial er því fyrsta tegund flöskuvatns í heiminum sem er vottað sem kolefnishlutlaust. 

Það eru ekki bara rokkstjörnurnar sjálfar sem munu svala þorsta sínum með íslensku vatni, en það fá tónleikagestir sömuleiðis. Hljómsveitinni var mikið í mun að draga úr kolefnisspori sveitarinnar á jafn stóru tónleikaferðalagi og er í vændum, og er því samkomulagið mikil gleðitíðindi. 

Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Glacial og sérstakur aðdáandi The Rolling Stones, er hæstánægður. „Við erum gríðarlega ánægð með þetta samstarf með hljómsveitinni og erum spennt fyrir því að hjálpa henni að gerast umhverfisvæn hljómsveit. Fyrirtækið okkar hefur frá upphafi lagt metnað sinn í að vera kolefnishlutlaust og það er sérstakt ánægjuefni að hitta á samstarfsaðila sem hafa sama metnað og við í því að draga úr kolefnisspori.“

No Filter-tónleikaferðalagið mun standa yfir til 8. júlí en því lýkur með risatónleikum í Varsjá. The Rolling Stones munu heimsækja fjórtán evrópskar borgir á ferðalaginu og munu heppnir tónleikagestir í London, Berlín og Prag, auk annarra borga, fá að svala þorsta sínum með íslensku vatni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×