Erlent

Ákærð fyrir að gefa birni ís

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Er þetta góður ís, björn?
Er þetta góður ís, björn? skjáskot
Eigendur dýragarðs í Alberta í Kanada hafa verið ákærðir fyrir brot gegn dýraverndarlögum fyrir að hafa farið með skógarbjörn í ísbúð.

Það vakti athygli á samfélagsmiðlum ytra þegar myndband birtist í janúar á veraldarvefnum þar sem björninn Berkley gæddi sér á ís í framsæti bifreiðar. Ekið hafði verið með hann að Dairy Queen verslun þar sem afgreiðslumaður mataði hann með skeið út um bílalúgu.

Málið var tekið til rannsóknar eftir að myndbandið birtist. Sú rannsókn leiddi einnig í ljós að starfsmenn dýragarðsins fóru með Berkley úr garðinum eftir lokum og gáfu honum pela utan hans.

Brotin sem ákært er fyrir varða annars vegar þessa háttsemi, en skylt er að tilkynna dýraeftirlitinu ef farið er með dýr úr dýragörðum, og hins vegar fyrir að aka með hann í ísbúðina.

„Hugmyndin með myndbandinu var forvarnarstarf. Margir stoppa á vegum landsins til að taka myndir af björnum og koma sér þannig í hættu. Skilaboð myndbandsins eru að það sé ekki rétt að stoppa til að mynda birni eða gefa þeim að éta,“ sagði Doug Bos, eigandi dýragarðsins, þegar málið komst í hámæli í upphafi árs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×