Handbolti

Úrslitin hefjast í Eyjum: „Verðugt verkefni að afsanna að þeir séu besta liðið“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Úrslitaeinvígið í Olís deild karla í handbolta hefst í dag með fyrsta leik ÍBV og FH í Vestmannaeyjum. ÍBV er taplaust í úrslitakeppninni til þessa en FH þurfti oddaleik til þess að sigra Selfyssinga í undanúrslitunum.

„FH-ingarnir eru verðugt verkefni og hafa sýnt það í vetur að þeir spila frábæran handbolta og viðureignir okkar við þá hafa verið hörku viðureignir,“ sagði Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, en Guðjón Guðmundsson ræddi við fyrirliða beggja liða í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld.

„Við sáum það bara í einvígi þeirra gegn Selfyssingum að þeir eru mjög öflugir þegar á reynir. Eru með leikmenn í sínu liði sem taka af skarið og ég er bara mjög spenntur.“

ÍBV er deildar og bikarmeistari ásamt því sem liðið komst í undanúrslit Áskorendabikars Evrópu. FH er í úrslitaeinvígi Olís deildarinnar annað árið í röð, en liðið tapaði fyrir Val síðasta vor.

„Þeir hafa unnið þessa titla sem eru í boði á tímabilinu svo það er verðugt verkefni að afsanna það að þeir séu sterkasta liðið,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH.

„Það svíður ennþá þetta tap á móti Val og við ætlum að nýta okkur það, þá reynslu sem við tökum úr því einvígi.“

Leikur eitt í úrslitunum hefst klukkan 17:30 og verður bein útsending frá Eyjum á Stöð 2 Sport frá 17:00. Leikurinn er einnig í beinni textalýsingu hér á Vísi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.