Klukkan í Hamburg hættir að telja eftir 54 ár

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Klukkan í leikslok í dag
Klukkan í leikslok í dag mynd/bundesliga

Þýskalandsmeistarar Bayern München luku keppni í Bundesligunni þetta tímabilið á stórtapi á heimavelli gegn Stuttgart. Alfreð Finnbogason misnotaði dauðafæri í tapi Augsburg og Hamburg féll úr efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins þrátt fyrir sigur.

Í byrjun aldarinnar var sett upp klukka á heimavelli Hamburg SV sem taldi tímann sem félagið hafði verið í efstu deild. Í dag segir klukkan 54 ár og 260 dagar en það þarf að endurstilla hana því í fyrsta skipti frá stofnun Bundesligunnar árið 1963 er liðið ekki lengur hluti af efstu deild.

Til þess að ná í sæti í umspilinu þurfti Hamburg að vinna og vona að Wolfsburg tapaði. Heimamenn gerðu sitt og sigruðu Monchengladbach 2-1. Wolfsburg sigraði hins vegar Köln 4-1 og sendi Hamburg niður í næst efstu deild.
 

Bayern München var fyrir nokkrum umferðum búið að tryggja sér Þýskalandsmeistaratitilinn og því ekki mikið nema heiðurinn að veði þegar Stuttgart mætti á Allianz völlinn í München. Gestirnir fóru hins vegar með 4-1 sigur sem tryggði þeim sjöunda sæti deildarinnar.

Alfreð Finnbogason og liðsfélagar í Augsburg töpuðu fyrir Freiburg á útivelli 2-0. Alfreð, sem var einn af þeim 23 leikmönnum sem Heimir Hallgrímsson valdi í lokahóp sinn fyrir HM í Rússlandi í gær, spilaði allan leikinn en náði ekki að skora. Hann misnotaði meðal annars dauðafæri í leiknum en allt kom fyrir ekki.

Leipzig tryggði sér sæti í Evrópudeild UEFA með sigri á Hertha Berlin. Sigurinn hefur ekki farið vel í eigendur Liverpool, en þeir hefðu þurft að borga þýska liðinu minna fyrir Naby Keita hefði þeim mistekist að tryggja Evrópusæti.

Dortmund endaði tímabilið á tapi fyrir Hoffenheim og Werder Bremen lagði Mainz. Öll úrslit og lokastöðuna má sjá í flipunum efst í fréttinni.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.