Erlent

Karlmaður skotinn til bana af lögreglu eftir hnífstunguárás í París

Sylvía Hall skrifar
Árásin átti sér stað á vinsælu veitingahúsasvæði í París.
Árásin átti sér stað á vinsælu veitingahúsasvæði í París. Vísir/Getty
Karlmaður var skotinn til bana af lögreglu í París eftir að maðurinn hafði ráðist að fólki með hníf í Opera-hverfinu í kvöld.

Franskir miðlar greina frá því að einn sé látinn og átta særðir eftir árásina, en ekkert hefur fengist staðfest frá lögregluyfirvöldum enn sem komið er.

Árásin átti sér stað á vinsælu veitingahúsasvæði í borginni og hafa vitni birt myndir og myndbönd frá vettvangi á samfélagsmiðlum þar sem fólk sést hlaupa í burtu frá svæðinu. 

Vitni segja mikla hræðslu hafa gripið um sig þegar maðurinn gekk um með hníf og mátti heyra mikil öskur á svæðinu þegar fólk kom auga á manninn. Íbúi á svæðinu segist hafa séð eitt fórnarlamb liggja á jörðinni og alblóðugan mann standa við hlið þess. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×