Innlent

Fjórar líkamsárásir á höfuðborgarsvæðinu í nótt

Þórdís Valsdóttir skrifar
Sex einstaklingar voru stöðvaðir af lögreglu í gærkvöld og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
Sex einstaklingar voru stöðvaðir af lögreglu í gærkvöld og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Vísir/Eyþór

Fjórar líkamsárásir voru framdar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þar af voru tvær sem áttu sér stað í miðborg Reykjavíkur og í öðru tilfellinu þurfti að fylgja brotaþola á slysadeild til aðhlynningar.

Alls komu sjötíu verkefni á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt og sex ökummenn voru stöðvaðir eftir að hafa ekið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Þá stöðvaði lögreglan ökumann á Reykjanesbraut við Kópavog um klukkan ellefu í gærkvöldi eftir að hraði bifreiðar hans hafði mælst 136 kílómetrar á klukkustund þar sem hámarkshraði var aðeins leyfður 80 kílómetrar á klukkustund. Ökumaðurinn reyndist einnig vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna sem og vera sviptur ökuréttindum.

Farþegi þurfti á sálrænni aðstoð að halda eftir háttalag ökumanns

Klukkan þrjú í nótt reyndi ökumaður bifreiðar að komast undan lögreglu eftir að hafa ekið gegn rauðu ljósi á Suðurlandsbraut. Lögregla hóf eftirför en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum hennar. Eftirförin var stutt og snörp en ökumaðurinn stöðvaði bifreiðina að sjálfsdáðum í nærliggjandi verslunarhverfi.

Ökumaðurinn reyndist vera allsgáður en að sögn lögreglu verður hann kærður fyrir nokkur brot og þar á meðal að setja líf manneskju í óljósan háska. Farþegi í bílnum þurfti meðal annars á sálrænni aðstoð að halda frá lögreglu vegna háttalags bílstjórans.

Í spyrnukeppni á Reykjanesbraut

Lögreglan hafði afskipti af tveimur bifreiðum á Reykjanesbraut við Kópavog um klukkan tvö í nótt en hraði bifreiða þeirra mældist 148 kílómetrar á klukkustund. Grunur leikur á að ökumennirnir hafi verið í spyrnukeppni. Þeir játuðu báðir sök og munu því eiga von á 230 þúsund króna sekt hvor um sig auk þess að vera sviptir ökuréttindum sínum í tvo mánuði.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.