Handbolti

Stórleikur Arnórs ekki nóg

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór í leik með íslenska landsliðinu
Arnór í leik með íslenska landsliðinu vísir/ernir
Þrátt fyrir stórleik Arnórs Þórs Gunnarssonar tapaði Bergischer sínum þriðja leik á tímabilinu í þýsku B-deildinni í handbolta þegar liðið sótti Lübeck heim í dag.

Arnór Þór skoraði átta mörk í leiknum í dag, þar af fjögur úr vítum. Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik og munaði aðeins einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 13-12.

Gestirnir í Bergischer komust yfir snemma í seinni hálfleik og voru skrefinu á undan í mjög jöfnum leik. Heimamenn komust hins vegar aftur yfir á 55. mínútu leiksins, 22-21, og fóru með tveggja marka sigur 24-22.

Tapið kom þó ekki að sök því Bergischer hefur nú þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar og farmiðan upp í úrvalsdeildina á næsta tímabili.

Fannar Þór Friðgeirsson gerði fimm mörk, þar af fjögur úr vítum, í tapi Hamm-Westfalen gegn Essen. Aðeins einu marki munaði á liðunum í hálfleik en í seinni hálfleik tóku heimamenn öll völd og sigldu að lokum fjögurra marka sigri, 37-33.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×