Lífið

Netta sökuð um menningarnám

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér má sjá Nettu á sviði í Altice-höllinni í Lissabon. Hún var klædd í Kimono-kjól og með japanskar styttur á bakvið sig sem eiga að færa eigandanum lukku.
Hér má sjá Nettu á sviði í Altice-höllinni í Lissabon. Hún var klædd í Kimono-kjól og með japanskar styttur á bakvið sig sem eiga að færa eigandanum lukku. Vísir/EPA
Netta Barzilai, sigurvegari Eurovision í ár, hefur verið sökuð um menningarnám. Ásökunin var sett fram vegna klæðnaðar og sviðsmyndar sem Netta notaðist við í Eurovision en hún sótti í japanskar hefðir, enda yfirlýstur aðdáandi japanskrar menningar.

Netta klæddist Kimono-kjól og var með hárið í tveimur hnútum. Þá var hún einnig með gylltar kattarstyttur á sviðið sem Japanir þekkja sem Maneki-Neko og eiga að laða að sér lukku eigandans.

Greint er frá þessu á vef breska dagblaðsins The Independent en þar segir að hún hafi verið gagnrýnd fyrir að nota japanska menningu sem leikmun.

Menningarnám er þegar hópar í yfirburðastöðu stela menningu þeirra sem eru í minnihluta sér til hagsbóta.

Nokkrir hafa komið Nettu til varnar og segja Ísraela alls ekki í yfirburðastöðu gagnvart Japönum.

Netta hefur lýst því að hún sé mikill aðdáandi Pokémon-heimsins sem japanska fyrirtækið Nintendo framleiðir. Netta sagði áhuga sinn á japanskri menningu hafa kviknað þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×