Enski boltinn

Tottenham þarf að taka áhættu ef liðið ætlar að verða meistari

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pochettino þakkar stuðningsmönnum fyrir stuðninginn eftir leik liðsins í gær.
Pochettino þakkar stuðningsmönnum fyrir stuðninginn eftir leik liðsins í gær. vísir/getty
Tottenham hélt áfram að festa sig í sessi með bestu liðum Englands í vetur en eftir sem áður kom enginn bikar í hús.

Liðið endaði í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar en þetta er þriðja árið í röð sem liðið er á meðal þriggja efstu. Spurs hefur aftur á móti ekki unnið bikar síðan 2008 er það varð deildabikarmeistari.

Stjóri félagsins, Mauricio Pochettino, ætlar að ræða við forráðamenn félagsins á næstu dögum og skoða hvað sé best að gera fyrir félagið í framhaldinu.

„Ef við ætlum að berjast um titlana í fullri alvöru þá þurfum við aðeins að skoða það sem við erum að gera. Ég tel að félagið standi á þeim tímamótum að það þurfi að taka áhættu og leggja aðeins harðar að sér ef það eiga að koma titlar í hús,“ sagði Pochettino.

Argentínumaðurinn tók við liðinu árið 2014 og undir hans stjórn er félagið sífellt á uppleið. Samt hefur það eytt mun minni peningum í leikmenn en hin félögin í topp sex á Englandi.

„Ég tel mig hafa skýra sýn á það sem við verðum að gera. Ég veit ekki hvort félagið verður sammála mér í því. Ég veit að stjórnarformaðurinn mun hlusta á mig en ég fæ stundum brjálaðar hugmyndir. Nú er mikilvægt fyrir félagið að vera hugrakkt og taka áhættur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×