Íslenski boltinn

Alex: Klár vítaspyrna, teikaði mig í teignum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Víkingar hafa enn ekki tapað leik
Víkingar hafa enn ekki tapað leik vísir/ernir
Mikil dramatík var í leik Stjörnunnar og Víkings í lokaleik 3. umferðar Pepsi deildar karla í Garðabænum í kvöld. Fjórar vítaspyrnur voru dæmdar í leiknum, þar af ein sem Alex Freyr Hilmarsson nældi í í uppbótatíma. Rick Ten Voorde skoraði úr spyrnunni og tryggði Víkingi 3-3 jafntefli.

En var þetta vítaspyrna?

„Klárlega. Hann teikar mig þarna inni í teignum og annars hefði ég verið alveg í dauðafæri,“ sagði Alex Freyr eftir leikinn.

Þjálfari hans, Logi Ólafsson, var sammála því að honum sýndist þetta vera vítaspyrna á meðan Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sagðist ekki hafa séð atvikið nógu vel.

Alex Freyr var sáttur með að ná stiginu en var heilt yfir ekki sáttur með frammistöðu síns liðs í leiknum.

„Sáttur að hafa náð að jafna en við hefðum átt að gera svo miklu betur í þessum leik. Fínt að fá þetta stig, erfiður útivöllur og allt það, en við eigum að geta spilað svo miklu betur. Eigum að klára þetta lið á okkar degi.“

Víkingur er þó taplaus eftir fyrstu þrjár umferðirnar og margt jákvætt hægt að taka úr þeirra leik.

„Við erum að mjakast áfram. Við náum toppnum bráðum,“ sagði Alex Freyr Hilmarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×