Erlent

Belgískur trúður sakaður um grimmilegt morð

Samúel Karl Ólason skrifar
Kevin Lapeire.
Kevin Lapeire. Facebook
Einn af skærustu trúðum Belgíu, Kevin Lapeire, hefur verið handtekinn og er hann grunaður um að hafa myrt fyrrverandi kærustu sína. Hann var í beinni útsendingu á Facebook þar sem hann var vopnaður skammbyssu á húsþaki, umkringdur lögregluþjónum. Hann gafst upp eftir um fjögurra klukkustunda umsátur og eftir að hann skaut ítrekað í loftið.

Lapeire varð frægur þegar hann tók þátt í Belgium‘s Got Talent og vann hann til verðlauna sem besti trúður Belgi. Hinum 31 árs gamla trúði er gert að hafa bundið þrjú börn kærustu sinnar, 12 ára, 15 ára og 17 ára, áður en hann myrti móður þeirra með hnífi. Þau höfðu hætt saman nokkrum dögum áður, samkvæmt Guardian.



Þá mun hann hafa hringt í skóla barnanna og sagt að þau yrðu sein næsta dag og sent skilaboð úr síma konunnar til yfirmanns hennar um að hún myndi ekki mæta til vinnu. Morðið mun hafa átt sér stað á sunnudaginn, sem einnig var mæðradagur, og naut Lapeire aðstoðar annars manns sem einnig keppti í Belgium‘s Got Talent.

Í frétt Telegraph segir að Lapeire hafi virst njóta athyglinnar á húsþakinu. Hann á að hafa þóst gefast upp nokkrum sinnum áður en hann var handtekinn.



Lapeire er einn af fimm atvinnutrúðum Belgíu og naut hann mikilla vinsælda. Hann skemmti börnum á sjúkrahúsum undir nafninu Doctor Aspirin og starfaði sem umboðsmaður fyrir fimmtán aðra skemmtikrafta.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×