Innlent

Biskup fór ekki að lögum við skipun Páls í embætti héraðsprests

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Vísir/Vilhelm
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, fór ekki að lögum við skipun Páls Ágústs Pálssonar í embætti héraðsprests Vesturlandsprófastsdæmis í júlí í fyrra. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að biskup hefði átt að skipa Pál í embættið til fimm ára og féllst á kröfu hans um að biskup gæfi út erindisbréf Páli til handa með gildistíma frá 1. júlí 2017 til 30. júní 2022.

Hjónin Karen Lind Ólafsdóttir og Páll Ágúst Ólafsson.Vísir/Egill
Forsaga málsins er sú að Páll var skipaður sóknarprestur á Staðarstað og jafnframt héraðsprestur í Vesturlandsprófastsdæmi í desember 2013. Í kjölfarið risu upp deilur milli Páls og biskups en upphaf þeirra má rekja til umfangsmikilla viðgerða sem nauðsynlegt þótti að ráðast í á prestssetrinu á Staðarstað.

Sjá einnig: Segja prestinn skulda 839 þúsund fyrir að rífa innréttingar úr fjárhúsi án leyfis

Biskup tilkynnti Páli svo í fyrrasumar að embættinu hefði borist áskorun um að leysa hann frá störfum sem sóknarprestur  á Staðarstað. Í bréfi biskups var Páli boðið að færast í starf héraðsprests Vesturlandsprófastsdæmis þann tíma sem eftir væri af tímabundinni skipun hans í embætti sóknarprests á Staðarstað, nánar tiltekið til 30. nóvember 2018.

Biskup skipaði Pál svo til embættis héraðsprests Vesturlandsprófastsdæmis til fimm ára og skipunartíminn þannig miðaður við skipun hans í embætti sóknarprests á Staðarstað. Þessu vildi Páll ekki una og vildi meina að þegar hann var skipaður héraðsprestur hefði nýr fimm ára skipunartími átt að hefjast.

Þessa kröfu Páls féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á í gær, m.a. vegna þess að Páll hafði í reynd verið fluttur í nýtt embætti héraðsprests og þannig hafi skipunartíma hans í embætti sóknarprests að Staðarstað lokið.

Þá var biskupi auk þess gert að greiða Páli 1,4 milljón króna í málskostnað. Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur má lesa í heild hér.


Tengdar fréttir

Prestur á Staðastað og biskup deila enn

Sóknarprestur á Staðastað sem gerður var að héraðspresti eftir deilur telur sig eiga að fá skipun til ársins 2022 en biskup hafnar því. Presturinn segir kirkjuna leyna gögnum um myglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×