Íslenski boltinn

Breiðablik með fullt hús eftir sigur í nágrannaslagnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Berglind byrjar tímabilið afar vel.
Berglind byrjar tímabilið afar vel. vísir/ernir
Breiðablik er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Pepsi-deild kvenna eftir 3-1 sigur á nýliðum HK/Víkings í grannaslag í Kórnum í kvöld.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir heldur uppteknum hætti og hún kom Breiðablik yfir á 33. mínútu. Fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Fjolla Shala forystuna.

Kristina Maureen Maksuti minnkaði muninn fyrir HK/Víking í síðari hálfleik en Agla María Albertsdóttir innsiglaði sigurinn úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Breiðablik er með níu stig en nýliðar HK/Víkings eru með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leiki sína.

Valur lenti í engum vandræðum með Grindavík í Grindavík en lokatölur urðu 3-0. Málfríður Erna Sigurðardóttir, Ásdís Karen Halldórsdóttir og Elín Metta Jensen skoruðu mörk Vals.

Valur er með sex stig eftir leikina þrjá en Grindavík er á botninum án stiga. Liðið hefur fengið tólf mörk á sig og ekki skorað neitt einasta mark.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði eina mark Stjörnunnar í 1-0 sigri á Selfoss. Markið kom í fyrri hálfleik en Stjarnan er með sex stig eftir þrjá leiki. Selfoss er án stiga.

FH sigraði svo KR í Frostaskjólinu en meira um þann leik má lesa hér. Öll úrslit og markaskorara eru fengin frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×