Erlent

Skaut 19 ára byssumann og forðaði nemendum frá bráðum bana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Borgin Dixon er um 160 kílómetra vestur af Chicago-borg.
Borgin Dixon er um 160 kílómetra vestur af Chicago-borg. Skjáskot/Google Maps

Lögreglumaður er sagður hafa forðað fjölmörgum nemendum framhaldsskóla í borginni Dixon í Illinois-ríki í Bandaríkjunum frá bráðum bana í dag er hann skaut fyrrverandi nemanda við skólann sem hóf skothríð á skólalóðinni.

Byssumaðurinn er 19 ára og hafði nýlega verið rekinn úr Dixon-framhaldsskólanum sem staðsettur er um 160 kílómetra vestur af Chicago-borg. Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur en hann hóf skothríð á gangi skólans um klukkan 8 í morgun að staðartíma.

Að því búnu hljóp hann út og mætti þar lögreglumanninum Mark Dallas sem starfar við skólann. Dallas skaut byssumanninn, sem særði hann en lögregla kom fljótlega á vettvang og handtók manninn.

Fleiri særðust ekki í árásinni en Dallas hefur verið hylltur sem hetja. Hann er sagður hafa brugðist hárrétt við hættulegum aðstæðum og því haldið fram að snör viðbrögð hans hafi bjargað lífi fjölmargra nemenda.

Í febrúar síðastliðnum var fulltrúi sýslumanns í Broward-sýslu á Flórída leystur frá störfum eftir að ljós kom að hann stóð hjá og aðhafðist ekkert á meðan vopnaður maður skaut sautján manns til bana í framhaldsskóla í Parkland.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.