Erlent

Ekki í fyrsta sinn sem afvopnun er lofað

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Aðalstjórnstöðin á tilraunasvæðinu í Punggye-ri. Loftmyndin er tekin með gervihnetti árið 2013. Lítil virkni hefur verið á svæðinu frá kjarnorkutilraun síðasta árs.
Aðalstjórnstöðin á tilraunasvæðinu í Punggye-ri. Loftmyndin er tekin með gervihnetti árið 2013. Lítil virkni hefur verið á svæðinu frá kjarnorkutilraun síðasta árs. Vísir/Getty

Fundur Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, í landamærabænum Panmunjom í apríl er flestum enn í fersku minni. Fundurinn átti sér óvæntan aðdraganda en á honum skrifuðu leiðtogarnir undir yfirlýsingu þar sem meðal annars var kveðið á um að ríkin myndu vinna að kjarnorku­afvopnun á Kóreuskaga.

Nú síðast um helgina bárust þær fréttir að Norður-Kórea áformi að taka í sundur tæki sín og tól á kjarnorkuprófunarsvæði sínu í Pung­gye-ri. Áformar einræðisríkið að sú vinna fari fram í næstu viku. Göng verða felld saman með sprengingum og eftirlitstæki fjarlægð.

„Kjarnorkumálastofnun landsins og aðrar tengdar stofnanir undirbúa nú þetta verkefni til þess að tryggja að það sé öllum ljóst að kjarnorkutilraunum hafi verið hætt,“ sagði í frétt ríkismiðilsins KCNA.

Kjarnorkusvæði Norður-Kóreu í Yongbyon. Vísir/getty

Ljóst er að ástandið á Kóreuskaga nú er mun friðvænlegra en í fyrra, þegar Kim sagðist ætla að varpa sprengjum á bandarísku eyjuna Gvam. En þótt Norður-Kórea heiti nú kjarnorkuafvopnun er, í ljósi sögunnar, ekki hægt að fagna strax.

Óvíst er hvort útfærsla Norður-Kóreu á kjarnorkuafvopnun verði Bandaríkjamönnum þóknanleg. Líklegt er að ríkisstjórn Donalds Trump forseta fari fram á að eftirlitsaðilar fái að fylgjast með því að afvopnun verði þannig háttað að ferlið sé óafturkræft og afgerandi.

Þá er þess skemmst að minnast að Norður-Kórea hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar skrifað undir samninga um að losa sig við vopn sín og hætta vinnu að kjarnorkuáætlun landsins. Við það hefur ekki enn verið staðið.

Raunveruleg geta Norður-Kóreu til að varpa þessum gereyðingarvopnum á óvini sína er óljós. Hins vegar hallast Bandaríkjamenn nú að því, samkvæmt skjölum sem lekið var í Washington Post í fyrra, að einræðisríkinu hafi tekist að smækka sprengjur sínar nóg til að hægt sé að flytja þær með langdrægum eldflaugum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.