Golf

Ólafía um miðjan hóp eftir fyrsta hringinn í Virginíu

Ísak Jasonarson skrifar
Ólafía í Texas fyrr í mánuðinum.
Ólafía í Texas fyrr í mánuðinum. vísir/getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék í dag fyrsta hringinn á Kingsmill Championship mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni í golfi. Ólafía lék ágætt golf á River vellinum í Virginíu fylki og kom inn á pari vallarins.

Á hringnum fékk Ólafía alls þrjá fugla, einn skolla og einn tvöfaldan skolla og er hún jöfn í 72. sæti af alls 144 keppendum. Efstu kylfingar mótsins eru jafnir á sex höggum undir pari en þeirra á meðal er Jessica Korda sem hefur nú þegar sigrað á einu móti á tímabilinu. Þó eiga nokkrir kylfingar enn eftir að ljúka leik í dag.

Kingsmill Championship er fjögurra daga mót sem lýkur á sunnudaginn. Eftir tvo hringi verður skorið niður og komast þá um 70 efstu kylfingarnir áfram. Ólafía Þórunn þarf því að halda vel á spöðunum á föstudaginn þegar annar hringurinn fer fram.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.