Enski boltinn

Wenger: Arteta hefur allt sem þarf

Einar Sigurvinsson skrifar
Wenger líst vel á Arteta sem arftaka sinn.
Wenger líst vel á Arteta sem arftaka sinn. getty
Fráfarandi knattspyrnustjóri Arsenal, Arsene Wenger, telur að Mikel Arteta geti verið góður kostur sem arftaki sinn hjá liðinu. Arteta starfar nú sem aðstoðarmaður Pep Guardiola hjá Manchester City en hann lék 150 leiki fyrir Arsenal.

„Hann er leiðtogi með mikla ástríðu fyrir leiknum. Hann þekkir félagið og veit hvað er mikilvægt fyrir það. Heilt yfir býr hann yfir öllum þeim hæfileikum sem þarf, en ég vil ekki hafa áhrif á ákvörðunina opinberlega,“ segir Wenger.

Mikel Arteta er einn þeirra sem hafa verið orðaðir við knattspyrnustjórastöðu Arsenal, en liðið vonast til að ljúka ráðningu sinni áður en Heimsmeistaramótið í Rússlandi hefst 14. júní. Arteta hefur aldrei verið aðalþjálfari, en hann fór í þjálfarateymi Manchester City árið 2016.

Arsene Wenger hefur lýst því yfir að hann vonist til þess að starfa áfram í kringum knattspyrnu á einn eða annan hátt, hann hefur hins vegar ekki ákveðið hvort muni þjálfa annað lið eftir dvöl sína hjá Arsenal.

„Enska úrvalsdeildin er mest spennandi staðurinn til að starfa í, en að þjálfa í öðru umhverfi og menningu er líka mjög spennandi,“ segir Wenger.


Tengdar fréttir

Arteta ræðir við Arsenal í dag

Sá þjálfari sem er talinn vera líklegasti arftaki Arsene Wenger hjá Arsenal, Mikel Arteta, mun loksins setjast niður með forráðamönnum Arsenal í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×