Fótbolti

Hannes: Rúnar á framtíðina fyrir sér en ég verð í markinu á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór Halldórsson er í baráttunni með Randers.
Hannes Þór Halldórsson er í baráttunni með Randers. vísir/getty
Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður Íslands, hefur mikla trú á varamönnum sínum Rúnari Alex Rúnarssyni og Frederik Schram til framtíðar en veit þó, eins og allir Íslendingar, að hann mun standa í markinu á HM 2018 í Rússlandi.

Hann ræðir Heimsmeistaramótið og fallbaráttuna í dönsku úrvalsdeildinni í snörpu viðtali við dönsku fótboltavefsíðuna Bold.dk þar sem að hann segist ekki geta hugsað of mikið um HM þessa dagana.

„Ef ég á að vera heiðarlegur hugsa ég ekki mikið um HM þessa dagana. Það er nógu stórt verkefni fyrir mig að reyna að halda Randers í dönsku úrvalsdeildinni. Ég veit að þetta er leiðinlegt svar, en svona er þetta,“ segir Hannes.

Tveir efnilegustu markverðir Íslands, Rúnar og Frederik, báðir fæddir árið 1995, verða Hannesi og íslenska liðinu til halds og trausts á HM en Hannes er öruggur um sæti sitt á meðal fyrstu ellefu.

„Ég verð í markinu klárlega ef ég er keki meiddur. Ég hef verið í byrjunarliðinu í sex ár. Það er ekki bara ég að vera hrokafullur,“ segir Hannes.

„Rúnar er frábær markvörður og hann mun spila marga landsleiki í framtíðinni en þeir koma ekki í sumar ef ég verð heill.“

Frederik Schram kom óvænt inn í HM-hópinn á lokametrunum en hann virðist hafa heillað mikið í Bandaríkjaferðinni í mars.

„Frederik var flottur í Bandaríkjunum og kom með mikinn ferskleika innn í þetta. Hann er stór markvörður sem verður spennandi að fylgjast með í Rússlandi,“ segir Hannes Þór Halldórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×