Erlent

Hernáminu verði að ljúka

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Óhóflegu afli var beitt þegar Ísraelar réðust gegn mótmælendum á Gasasvæðinu með þeim afleiðingum að yfir hundrað Palestínumenn fórust. Þetta sagði Zeid Ra’ad al-Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, á fundi Mannréttindaráðs SÞ í Genf í gær. Hussein sagði enn fremur að íbúar á Gasasvæðinu væru „hlekkjaðir við baneitrað skuggahverfi“ og að hernámi Ísraela á svæðinu yrði að ljúka.

Samkvæmt BBC íhuga SÞ nú að kalla eftir óháðri rannsókn á því hvað fram fór á Gasasvæðinu. Greint hefur verið frá því að ísraelskir hermenn drápu um sextíu Palestínumenn á mánudaginn en Palestínumenn hafa mótmælt við landamæravegg Ísraela á Gasasvæðinu í sjö vikur. Um var að ræða mesta mannfall á einum degi á Gasasvæðinu frá stríðinu árið 2014.

Mótmælin, kölluð „heimkomu­marsinn mikli“, snúast um að lýsa því yfir að Palestínumenn eigi rétt á því að snúa heim til landsins sem forfeður þeirra þurftu að flýja frá eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Það vilja Ísraelar ekki, hafa reyndar lengi útilokað slíka heimkomu, og telja að hryðjuverkamenn myndu nýta sér mótmælin til að komast til Ísraels og ráðast þar á almenna borgara.




Tengdar fréttir

Rannsakað af stríðsglæpadómstólnum

Um tólf þúsund hafa særst í mótmælum á Gazaströndinni frá marslokum. Öryggisráðið fundaði í gær vegna mannfallsins á sunnudag. Aðalsaksóknari stríðsglæpadómstólsins fylgist náið með málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×