Handbolti

Arnar: Ætluðum að hirða allar þessar dollur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnar Pétursson í leiknum í dag
Arnar Pétursson í leiknum í dag vísir/andri marinó
Arnar Pétursson stýrði sínum mönnum í ÍBV til Íslandsmeistaratitils í dag og eru Eyjamenn búnir að taka alla titla sem hægt er á tímabilinu, Íslands-, bikar- og deildarmeistarar.

„Tilfinningin er frábær. Eitthvað sem við ætluðum okkur fyrir tímabilið að hirða allar þessar dollur og það tókst,“ sagði Arnar í settinu hjá Seinni bylgjunni strax eftir leikinn á Stöð 2 Sport í dag.

„Erum búinir að leggja gríðarlega vinnu í hlutina og ganga í gegnum ýmislegt. Við æfðum óhemju mikið í fyrra sumar og ég get sagt þér eins og er að þeir voru orðnir ansi þreyttir á mér þessir gömlu, skildu ekki allar þessar lyftingar og þessi hlaup en það skiptir engu máli. Í dag erum við að uppskera gríðarlega vinnu.“

„Þetta er búið að vera langt ferli. Menn eru að tala um að við séum dýrasta liðið og allt það. Við erum með fullt af ungum og efnilegum strákum. Erum í allan vetur búnir að spila á ungum strákum og erum búnir að uppskera.“

Það er búin að vera mikil neikvæð umræða eftir síðasta leik í kringum brot Andra Heimis Friðrikssonar á Gísla Þorgeir Kristjánssyni og var hann dæmdur í eins leiks bann af aganefnd HSÍ í morgun.

„Ég er tilfinningaríkur og er búinn að vera ofboðslega reiður við HSÍ síðasta sólarhringinn og undanfarnar vikur en ég náði því úr mér í dag,“ sagði Arnar Pétursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×