Íslenski boltinn

Bikarmeistararnir hefja titilvörnina á dramatík í Eyjum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
ÍBV er ríkjandi bikarmeistari
ÍBV er ríkjandi bikarmeistari mynd/hafliði breiðfjörð
Bikarmeistarar ÍBV tryggðu sig áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í dag með dramatískum sigri á liði Einherja í Vestmannaeyjum þar sem þrjú mörk voru skoruð á síðustu mínútum leiksins.

ÍBV var mikið meira með boltann strax frá upphafi, enda liðið í Pepsi deildinni en mótherjarnir í 3. deild. Fyrsta markið kom þó ekki fyrr en á 38. mínútu þegar Íraninn Shahab Zahedi skoraði eftir stoðsendingu Dags Austmann Hilmarssonar.

Zahedi var svo aftur á ferðinni strax í upphafi seinni hálfleiks þegar hann skoraði beint úr hornspyrnu. Boltinn sveif með aðstoð vindsins beint úr hornspyrnunni og í samskeytin á nærstönginni .

Þriðja mark Eyjamanna kom undir lok leiksins þegar brotið var á Ágústi Leó Björnssyni innan vítateigs og Gunnþór Steinar Jónsson, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu. Atli Arnarsson steig á punktinn og skoraði.

Gestirnir frá Vopnafirði náðu að klóra í bakkann á síðustu mínútu venjulegs leiktíma með marki Jökuls Steins Ólafssonar. Hann komst einn í gegn á móti Halldóri Pál Geirssyni í marki ÍBV og skoraði milli fóta hans. Þeir gerðu svo enn betur og örstuttu síðar lék Heiðar Aðalbjörnsson á vörn ÍBV og skoraði annað mark Einherja.

Dramatíkin á loka mínútunum var ekki búin, Ágúst Leó kláraði leikinn fyrir ÍBV með marki eftir frábæra sendingu markmannsins Halldórs Páls. Fleiri náðu mörkin ekki að verða, lokatölur 4-2 og bikarmeistararnir halda áfram í titilvörn sinni.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara voru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×