Bíó og sjónvarp

Fær kynbundinn launamun greiddan

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Claire Foy og Matt Smith í hlutverki konungshjónanna bresku.
Claire Foy og Matt Smith í hlutverki konungshjónanna bresku. NETFLIX
Framleiðendur þáttanna The Crown hafa ákveðið að grípa til aðgerða gegn kynbundnum launamun eftir að upp komst um mikinn launamun milli aðalleikara þáttanna.

Með aðalhlutverk í þáttaröðinni, sem fjallar um líf Elísabetar II. Bretadrottningar, fara Claire Foy, í hlutverki Elísabetar, og Matt Smith, í hlutverki Filippusar, manns hennar.

Upp komst um launamuninn í mars síðastliðnum og olli hann nokkurri hneykslan þar sem hann kom í kjölfar mikillar umræðu um misjafna aðstöðu kynjanna innan kvikmyndaiðnaðarins.

Upplýst hefur verið að Foy muni fá launamuninn greiddan, en samkvæmt Daily Mail er upphæðin um 200 þúsund pund, eða tæpar 28 milljónir íslenskar á núverandi gengi.

Framleiðendur þáttanna hafa hingað til viljað halda því fram að launamunurinn skýrist af því að Smith hafi notið meiri velgengi en Foy áður en hann var ráðinn til þáttarins.

Foy og Smith munu þó ekki fara með hlutverk konungshjónanna í næstu seríu, en nýir leikarar munu taka við af þeim nú þegar sögupersónurnar færast inn á nýtt aldursskeið.

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×