Sport

Refsa þeim sem hætta í miðjum leik vegna meiðsla

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Roger Federer sigraði Wimbledon mótið síðasta sumar
Roger Federer sigraði Wimbledon mótið síðasta sumar vísir/getty
Forráðamenn Wimbledon mótsins í tennis hafa sett nýjar reglur sem refsa leikmönnum fyrir að hætta í miðjum leik vegna meiðsla.

Á síðasta ári var mikið um meiðsli á mótinu og gerðist það að andstæðingar Roger Federer og Novak Djokovic hættu í miðjum leik sama daginn. Andstæðingar þeirra, Alexandr Dolgopolov og Martin Klizan, komust ekki í gegnum eitt sett í viðureignum sínum við stórstjörnurnar eftir að hafa átt við meiðsli að stríða fyrir mótið.

Sjö keppendur hættu leik í miðri viðureign í fyrstu umferðinni sem vakti grun á því að keppendur færu inn í mótið meiddir til þess að missa ekki af verðlaunafénu sem fæst fyrir að taka þátt í mótinu. Á þessu ári munu þeir sem detta út í fyrstu umferð mótsins fá 39 þúsund pund, en það eru rúmar 5 milljónir íslenskra króna.

Því hefur verið ákveðið að taka upp svokallaða 50-50 reglu sem var fyrst notuð á opna ástralska mótinu fyrr á þessu ári. Reglan segir að þeir leikmenn sem meiðast í mótinu fá helming verðlaunafésins sem þeir hefðu fengið fyrir að detta út í fyrstu umferð. Leikmenn sem fara inn í mótið meiddir geta hins vegar átt von á því að vera sektaðir um allt verðlaunaféð ef forráðamönnum Wimbledon finnst þeir ekki hafa átt að taka þátt vegna meiðslanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×