Innlent

650 kílómetra flug til bjargar sjómanni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
TF-SYN fór í langferð í gærkvöldi.
TF-SYN fór í langferð í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm
TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar, sótti í gærkvöld slasaðan skipverja á rússneskum togara. Landhelgisgæslunni barst beiðni frá áhafnarmeðlimunum um klukkan 17:25 í gær, en þá var togarinn staddur um 226 sjómílur suðvestur af Reykjanesi.

Skipverjar tjáðu Landhelgisgæslunni að um borð væri slasaður áhafnarmeðlimur sem þurfti að komast í land undir læknishendur. Skipinu var beint að halda áleiðis til Íslands, með stefnu á Reykjanesið, Landhelgisgæslan myndi senda þyrlu eftir manninum þegar flugþol þyrlu leyfði.

TF-SYN hélt svo til móts við skipið, að lokinni eldsneytistöku í Keflavík, og var komið að togaranum um klukkan 23:00. Þá var skipið statt um 175 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Ein sjómíla er um 1850 metrar og var því skipið í rúmlega 324 kílómetra fjarlægð frá landi. 

Um 20 mínútum síðar var búið að hífa manninnn upp og var hann fluttur á Landspítalann þar sem byrjað var að hlúa að honum um klukkan 01:00. Með því lauk rúmlega 650 kílómetra ferðalagi TF-SYN í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×