Handbolti

Annar Færeyingur til KA en Fram missir sinn besta mann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Allan Norðberg er kominn til KA.
Allan Norðberg er kominn til KA. mynd/KA
Handboltalið KA sem vann sér sæti í Olís-deild karla í vetur er byrjað að styrkja sig fyrir átökin á meðal þeirra bestu á næstu leiktíð.

KA-menn eru búnir að ganga frá samningi við færeyska landsliðsmanninn Allan Norðberg sem kemur frá StÍF en hann er hægri hornamaður og var valinn í lið ársins í Færeyjum á síðustu leiktíð þar í landi.

Norðanmenn voru án rétthents hornamanns á síðustu leiktíð en eru nú búnir að fylla í það skarð. Norðberg var markahæsti hægri hornamaður færeysku deildarinnar í vetur.

Hjá KA hittir hann félaga sinn í landsliðinu Áka Egilsnes sem gekk í raðir KA fyrir síðustu leiktíð og varð markahæsti leikmaður liðsins í vetur.

Á meðan KA er að styrkja sig með landsliðsmanni er Fram að missa sinn allra besta leikmann en fram kemur á danska miðlinum Jydske Vestkysten að Arnar Birkir Hálfdánsson, hægri skytta Framara, sé á leið til SöndrejyskE.

Arnar Birkir skoraði 116 mörk fyrir Fram í Olís-deildinni í vetur eða 5,3 mörk að meðaltali í leik auk þess sem að hann gaf 4,6 stoðsendingar og var með 2,7 löglegar stöðvanir að meðaltali í leik.

Þetta er mikill missir fyrir Fram-liðið sem var í fallbaráttu nær allt tímabilið en komst þó í úrslitaleik bikarsins þar sem að það tapaði fyrir ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×