Handbolti

Arnar: Hann líður fyrir að vera sonur minn í þessu liði

Benedikt Grétarsson skrifar
Arnar í forgrunni en Dag, son hans, má sjá vinstra megin í bakgrunni á myndinni.
Arnar í forgrunni en Dag, son hans, má sjá vinstra megin í bakgrunni á myndinni. vísir/valli
„Mér fannst við frábærir fyrsta korterið og mjög ferskir. Ég tók leikhlé og fannst vera fullt af sénsum sem við vorum ekki að nýta og ég var pínu smeykur að ferðalagið til Rúmeníu sæti í okkur," sagði sigurreifur Arnar Pétursson eftir frábæran útisigur ÍBV gegn Haukum í undanúrslitum Olís-deildar karla.

„Seinni hálfleikurinn var svo bara frábær," en með sigrinum er ÍBV komið í 2-0 í einvíginu.

„Varnarleikurinn var frábær í seinni. Það er karakter, vilji og vinnusemi að ná að snúa svona leik við með varnarleik. Við vorum þreyttir sóknarlega og Sigurbergur og Róbert Aron ekki að finna sig og það gerir þetta jafnvel bara sætara.”

„Við erum án Magnúsar Stefánssonar sem er okkar fyrirliði og aðal varnarmaður. Ég er gríðarlega stoltur af strákunum í kvöld.“

Dagur, sonur þjálfarans, kom með mikinn kraft og áræðni inn í leikinn undir lokin og átti flottan leik. Arnar segir Dag kannski ekki alltaf njóta sannmælis inni á vellinum.

„Hann líður fyrir að vera sonur minn í þessu liði og hefur alltaf gert. Hann var frábær og sprengir þetta upp með hraða sem okkur vantaði. Hann var mjög góður og ég er stoltur af honum,“ sagði Arnar Pétursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×