Innlent

Útlit fyrir slydduél á morgun

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Í næstu viku er útlit fyrir að snjórinn verði kvaddur í bili.
Í næstu viku er útlit fyrir að snjórinn verði kvaddur í bili. Skjáskot/veðurstofa

Enn halda élin áfram S- og V-lands í dag, en þó er útlit fyrir að dragi verulega úr þeim síðdegis og jafnvel að stytti upp í kvöld, samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings hjá veðurstofu Íslands. Á morgun bætir enn á ný í úrkomuna, en þá er útlit fyrir slydduél. NA-lands verður að mestu þurrt og jafnvel bjart. 

Á mánudag skipta veðrakerfin um gír þegar snýst í suðaustanátt með hlýnandi veðri og rigningu, en áfram er útlit fyrir þurrt veður NA-til. Komandi vika býður síðan upp á austlægar áttir og rigningu í flestum landshlutum, en þó nokkuð milt veður og er útlit fyrir að snjórinn verði kvaddur í bili.

Enn er gul viðvörun fyrir Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra. 

Veðurhorfur á landinu

Suðvestan 8-15 m/s og él, en yfirleitt þurrt og bjart NA-til á landinu. Styttir upp um tíma í kvöld. Suðvestan 10-18 á morgun og él eða slydduél, en áfram þurrt NA-lands. 
Hiti 1 til 10 stig að deginum, hlýjast á Austurlandi.


Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Gengur í suðaustan 5-13 m/s með rigningu og súld, en úrkomulítið á N- og A-landi. Hiti 4 til 10 stig, hlýjast NA-til. 

Á þriðjudag:
Breytileg átt 3-8 m/s, skýjað að mestu og dálítil væta, einkum S- og A-til. Hiti 5 til 10 stig að deginum. 

Á miðvikudag:
Austan 5-13 m/s og rigning um landið sunnanvert, en þurrt að kalla fyrir norðan. Hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag (uppstigningardagur) og föstudag:
Útlit fyrir breytilega átt og rigningu um mest allt land. Hiti 6 til 11 stig að deginum.

Færð á vegum

Á Suður- og suðvesturlandi er víða greiðfært á láglendi. Hálkublettir eru á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en þæfingsfærð er á Bláfjallavegi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. 

Á Vesturlandi er víðast hvar greiðfært á láglendi en sumstaðar hálkublettir. Hálka er á Holtavörðuheiði og krapi á Laxárdalsheiði.

Hálka eða hálkublettir ásamt éljagangi eru víða á láglendi á Vestfjörðum. Snjóþekja eða krapi er á flestum fjallvegum en ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðum.

Það er mikið til greiðfært á Norður- og Austurlandi. Hálka er á Öxnadalsheiði og hálkublettir á Mjóafjarðarheiði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.