Handbolti

Gunnar: Tveir rangir dómar fara með leikinn

Benedikt Grétarsson skrifar
Gunnar Magnússon og hans menn eru komnir í frí.
Gunnar Magnússon og hans menn eru komnir í frí. vísir/anton
„Þetta er bara sorglegt en ég er stoltur af strákunum sem gáfu allt í þetta. Svekkjandi auðvitað að vinna ekki leik í einvíginu en þetta voru allt jafnir leikir sem gátu farið á hvorn veginn sem var,“ sagði vonsvikinn þjálfari Hauka, Gunnar Magnússon eftir 27-25 tap gegn ÍBV. Haukar eru því úr leik.

Haukar fengu á sig tvo ruðningsdóma undir lok leiks og Gunnar var ekki sáttur við þá túlkun dómara.

 „Það verður gaman eða kannski ekki gaman að skoða þetta betur. Þessir tveir ruðningar sem við fáum á okkur undir lok leiksins, það þarf klárlega að skoða þá betur.”

„Frá mínu sjónarhorni voru þetta tveir rangir dómar sem mér fannst fara með leikinn í dag. Það er svekkjandi ef svo er en svona hlutir gerast í handbolta.“

Gunnar viðurkennir að betra liðið hafi unnið þetta einvígi.

„Það er ekkert grín að eiga við þetta ÍBV-lið. Það er búið að setja saman frábært lið hérna í Eyjum og þeir eiga hrós skilið. Það er gaman að glíma við þá en við þurftum betri vörn og markvörslu til að klára þetta.”

„Því miður fór þetta svona en þetta var skemmtileg rimma og ég óska ÍBV góðs gengis í framhaldinu,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka og fyrrum þjálfari ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×