Handbolti

Markvörður og hornamaður í Mosfellsbæinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór Freyr í leik með ÍR þar sem hann lék áður en hann fluttist til Danmerkur.
Arnór Freyr í leik með ÍR þar sem hann lék áður en hann fluttist til Danmerkur. vísir/valli
Júlíus Þórir Stefánsson og Arnór Freyr Stefánsson hafa skrifað undir samning við Aftureldingu í Olís-deild karla en Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun.

Vinstri hornamaðurinn Júlíus Þórir hefur leikið með Gróttu undanfarin ár eftir að hafa leikið með Val þar á undan. Hann hefur verið einn máttastólpa Gróttu-liðsins sem hélt sæti sínu í Olís-deildinni á síðustu leiktíð.

Arnór Freyr er markvörður sem hefur leikið hér á landi með ÍR og HK en síðustu tvö ár hefur hann leikið í Danmörku með Randers.

Hann hefur verið í námi en flytur nú heim og spilar í Mosfellsbænum á næstu leiktíð.

Afturelding datt út úr 8-liða úrslitum Olís-deildarinnar eftir 2-0 tap gegn FH en Einar Andri Einarsson þjálfar Aftureldingu áfram. Hann hefur þjálfað liðið síðustu fjögur tímabil með fínum árangri.

Mosfellingar glímdu við mikil meiðsli á síðustu leiktíð og voru margir lykilmenn lengi frá vegna meiðsla. Það horfir nú til betri vegar og eru allir leikmenn að ná hestaheilsu en leikmenn Aftureldingar hafa nú þegar hafir undirbúning fyrir næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×