Erlent

Metanlosun frá ferskvötnum gæti stóraukist samfara hlýnun jarðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Allt að fjögur hundruð sinnum meiri metanmyndun varð af völdum sefsins en barrtrjáa í rannsókn vísindamannanna á tilraunastofu.
Allt að fjögur hundruð sinnum meiri metanmyndun varð af völdum sefsins en barrtrjáa í rannsókn vísindamannanna á tilraunastofu. Vísir/AFP
Vísbendingar eru um að losun gróðurhúsalofttegundarinnar metans frá ferskvötnum á norðurhveli jarðar gæti allt að tvöfaldast á næstu fimmtíu árunum eftir því sem hnattræn hlýnun heldur áfram að breyta gróðurfari.

Rannsókn vísindamanna við Cambridge-háskóla á Englandi bendir til þess að aukin útbreiðsla sefs við ferskvatn á norðurhveli geti stóraukið myndun metans í vötnunum. Metan er tuttugu og fimm sinnum öflugari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur en lifir skemur í lofthjúpi jarðar.

Metan myndast í ferskvatni þegar örverur nærast á lífrænu efni úr gróðri sem fellur til botns í þeim. Mismikið metan verður til eftir því hvaða hvers kyns plöntuleifar lenda í vatninu. Áætlað er að um 16% af náttúrulegri losun á metani komi frá stöðuvötnum. 

Rannsóknin leiddi í ljós að um 400 sinnum meira metan varð til úr sefinu en barrtrjám, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Vísindamennirnir telja að efni í barr- og sumargrænum trjám hamli metanmyndun örveranna. Það sama sé hins vegar ekki uppi á teningnum með sefið.

„Sefið er ekki með sömu efnin þannig að það stöðvar örverurnar ekki lengur í að mynda metan,“ segir Andrew Tanentzap, aðalhöfundur rannsóknarinnar frá Cambridge-háskóla.

Sefið líklegt til landvinninga til norðurs

Líkön yfir hvernig gróðurfar er líklegt til að breyta með áframhaldandi hnattrænni hlýnuna benda til þess að sefið haldi áfram að hasla sér völl norðar og norðar þar sem mikið er um stöðuvötn.

Útreikningar vísindamannanna benda til þess að sefið gæti hafa breitt úr sér til tvöfalt fleiri vatna en nú um miðja öldina. Við það gæti losun gróðurhúsalofttegunda aukist um að minnsta kosti 73% yfir vaxtartímabilið.

Tanentzap varar við því að þessi losun gæti vegið upp á móti bindingu plantna á kolefni. Grein um niðurstöður rannsóknarinnar birtist í vísindaritinu Nature Communications.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×