Innlent

Birkimelur með hjólastíg og þrengingum handan við hornið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá framkvæmdunum við Birkimel á mánudag.
Frá framkvæmdunum við Birkimel á mánudag. Vísir/Vilhelm
Framkvæmdir eru langt komnar við Birkimel í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem göngu- og hjólreiðastígur hefur verið lagður vestan megin götunnar. Þá hefur gatan verið þrengd á tveimur stöðum auk þess sem hámarkshraði í götunni er nú 30 km/klst en var áður 50 km/klst.

Upphaf framkvæmdarinnar má rekja til hugmyndar íbúa um að endurnýja gangstétt og gera hjólastíg í íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt. Hugmyndin hlaut brautargengi og var kosin til framkvæmda. Verja átti tíu milljónum til framkvæmda sem fara áttu fram síðastliðið sumar samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma á heimasíðu borgarinnar.

Umhverfis- og skipulagsráð tók verkefnið upp á sína arma og ákvað að ráðast í enn meiri endurbætur en hljóðuðu í tillögu íbúanna. Meðal annars bæta lýsingu með tillkomu nýrra ljósastaura og breikka stíginn sem er fjórir metrar á breidd. Þá var ákveðið að þrengja götuna við biðstöðvar strætisvagna með tilliti til öryggis og bættrar aðstöðu farþega.

Ljósmyndari Vísis var á svæðinu í gær þar sem unnið var að framkvæmdum eins og sjá má hér að ofan. Að neðan má sjá hvernig gatan leit út fyrir breytingar. Í upphaflegri áætlun verkfræðistofunnar EFLU fyrir Reykjavíkurborg í fyrra kom fram að áætlaður kostnaður við verkefnið væri 115 milljónir króna. Niðurstaðan varð 55 milljóna króna framkvæmd.

F
rétt uppfærð klukkna 13:57 með nýjum upplýsingum frá Reykjavíkurborg um framkvæmdakostnað.

Nýr Birkimelur horft í suður.Vísir/Vilhelm
Birkimelur eins og hann var, horft í norður.Reykjavíkurborg
Birkimelur í fyrri mynd, horft í suður.Reykjavíkurborg
Á myndinni má sjá hvar gatan verður þrengd.Reykjavíkurborg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×