Erlent

Lífstíðarfangelsi yfir fyrrverandi leiðtoga úr kínverska kommúnistaflokknum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sun Zhengcai þáði milljónir dollara í formi eigna og reiðufjár frá 2002 til 2017. Hann ætlar ekki að áfrýja dómnum.
Sun Zhengcai þáði milljónir dollara í formi eigna og reiðufjár frá 2002 til 2017. Hann ætlar ekki að áfrýja dómnum. Vísir/AFP
Fyrrverandi háttsettur embættismaður úr kínverska kommúnustaflokknum var dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna mútuþægni. Hann bætist í hóp leiðtoga flokksins sem hafa orðið uppvísir að spillingu í herferð Xi Jinping forseta gegn henni.

Sun Zhengcai var fulltrúi í framkvæmdastjórn Kommúnistaflokksins og leiðtogi hans í Chongqing. Hann var lengi talinn líklegur til að rísa til æðstu metorða innan flokksins. Hann játaði sig hins vegar sekan um að hafa tekið við meira en 26,7 milljónum dollara í mútum í apríl, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Lagt verður hald á á „ólögmætan ávinning“ Sun.

Fleiri en milljón embættismanna hefur verið refsað í herferð Xi gegn spillingu í Kína eftir að hann varð forseti árið 2012. Gagnrýnendur forsetans fullyrða hins vegar að hann hafi notað herferð sína gegn spillingu til þess að þagga niður í gagnrýnisröddum og pólitískum andstæðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×