Handbolti

Kvartanir bárust eftir síðasta leik á Selfossi: „Skilja allir hættuna“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Einar Sverrisson og hans menn taka á móti FH í Vallaskóla á morgun. Stemningin verður rosaleg.
Einar Sverrisson og hans menn taka á móti FH í Vallaskóla á morgun. Stemningin verður rosaleg. mynd/selfoss
Það ríkir gífurleg eftirvænting fyrir oddaleik Selfyssinga og FH annað kvöld en sigurvegarinn í leik liðanna fer í úrslitaeinvígið gegn Eyjamönnum. Stemningin er eftir því.

Leikið er í Vallaskóla á Selfossi þar sem 798 áhorfendur sáu síðasta leik liðanna. Ansi þétt var setið á pöllunum og eftir leik barst brunavörnum Árnessýslu ábendingar að brunavörnum væri ábótavatn.

„Það komu nokkrar kvartanir inn á borð til okkar frá áhyggjufullum áhorfendum eftir síðasta leik,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is. Hann segir að kvartanirnar hafi ekki komið frá FH-ingum heldur heimamönnum.

Unnið er nú að því að búa til flóttaleið út á þakið eins og sjá má á mynd sunnlenska en þegar í oddaleik er komið gilda reglur um að miðar á leikinn skiptast jafnt á milli liðanna.

Selfoss fær því 370 miða og FH 370 en eftir fund með brunavörnum var ákveðið að hleypa 740 áhorfendum í húsið á miðvikudagskvöldið.

Selfyssingar ætla því að búa til FanZone í austurrými skólans þar sem þeir sem náðu ekki miða á leikinn geta horft á leikinn en einnig verður hann sýndur í Bíóhúsinu á Selfossi.

Stöð 2 Sport verður að sjálfsögðu á staðnum en Seinni bylgjan hefur göngu sína 19.30. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 20.00 og verður sýndur í þráðbeinni en einnig lýst á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×