Erlent

83 ára tekinn af lífi í Alabama

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Walter Leroy Moody.
Walter Leroy Moody. Mynd/Department of Justice
Bandaríkjamaðurinn Walter Leroy Moody, sem dæmdur var fyrir morð á alríkisdómara árið 1996, var tekinn af lífi í Alabama í Bandaríkjunum í nótt. Moody er 83 ára gamall og þar með elsti maðurinn sem líflátinn hefur verið í Bandaríkjunum síðan dauðarefsing var tekin upp að nýju þar í landi árið 1976.

Moody var dæmdur í Alabama fyrir að senda áðurnefndum dómara, Robert Vance, sprengju með pósti árið 1989 en sprengjan varð Vance að bana. Þá var Moody einnig dæmdur fyrir morðið á lögfræðingnum Robert Robinson sem myrtur var með sama hætti.

Moody hlaut lífstíðardóm árið 1991 en refsingin var þyngd fjórum árum síðar eftir að ákæruvaldið áfrýjaði dómnum og krafðist dauðarefsingar. Moody hefur ítrekað haldið því fram að hann sé saklaus.

Moody er annar maðurinn sem tekinn hefur verið af lífi í Alabama það sem af er ári og sá áttundi í Bandaríkjunum öllum. Hann var líflátinn með inngjöf banvænnar lyfjablöndu í æð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×