Viðskipti innlent

Origo kaupir hugbúnaðarfyrirtækið Benhur

Samúel Karl Ólason skrifar
Hákon Sigurhansson framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna Origo.
Hákon Sigurhansson framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna Origo.
Félagið Origo hefur keypt hugbúnaðarfyrirtækið Benhur. Samkvæmt tilkynningu er markmiðið með kaupunum á Benhur er að breikka lausnaframboð Origo á heilbrigðissviði, svo sem með lausnum og þjónustu til rannsóknastofa.

„Starfsemi Benhur fellur afar vel að heilbrigðislausnum Origo og veruleg samlegð fæst með kaupunum,“ segir Hákon Sigurhansson framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna Origo. „Í kjölfarið getum við boðið lausnir og þjónustu fyrir rannsóknarstofur og veitt aðilum á heilbrigðissviði enn betri þjónustu.“

Benhur hefur selt og þjónustað hugbúnað fyrir rannsóknarstofur á heilbrigðissviði frá belgíska fyrirtækinu MIPS í 14 ár. Landspítalinn hefur notað CLIMS rannssóknarstofukerfið og Cyberlab beiðna- og svarakerfi frá MIPS í fjölda ára. Innleiðing á kerfunum stendur einnig yfir á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá er innleiðing á Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítalans í undirbúningi.

Benhur varð hluti af Heilbrigðislausnum Origo frá og með 1. apríl. Þá gekk Skúli Barker, fyrrum eigandi Benhur, til liðs við Origo. Hann mun áfram sinna þjónustu og ráðgjöf fyrir notendur Clims og Cyberlab frá MIPS. Kaupin á Benhur hafa óveruleg áhrif á rekstur og afkomu Origo.

Origo varð til við sameiningu Nýherja, Applicon og TM Software. Hjá Origo starfa hátt í 430 manns og dótturfélög Origo eru Tempo og Applicon í Svíþjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×