Salah jafnaði markametið í dramatísku jafntefli

Dagur Lárusson skrifar
Salah jafnaði markametið.
Salah jafnaði markametið. vísir/getty
Mohamed Salah jafnaði markamet ensku úrvalsdeildarinnar í 2-2 jafntefli Liverpool gegn West Brom nú rétt í þessu en þetta var 31 deildar mark Salah á tímabilinu.

Liverpool byrjaði leikinn með miklum krafti og sótti stíft fyrstu mínúturnar. Á fjórðu mínútu fékk Sadio Mané boltann á vinstri vængnum og lék hann skemmtilega á Jay Rodriguez og gaf inná teiginn þar sem enginn annar en Danny Ings var mættur og skoraði sitt fyrsta deildarmark í langan tíma og leiddu gestirnir í hálfleiknum.

Í seinni hálfleiknum færðu liðsmenn West Brom sig aðeins framar á völlinn sem gerði það að verkum Liverpool fékk fleiri skyndisóknir og náði Liverpool að nýta sér eina slíka á 72. mínútu.

Oxlade Chamberain fékk þá boltann á miðjunni og gaf frábæra sendingu á Mohamed Salah sem hafði tekið frábært hlaup þvert yfir vörn West Brom og vippaði hann boltanum frábærlega yfir Ben Foster í markinu og jafnaði þar með markametið.

Allt stefndi í öruggan sigur Liverpool en annað átti eftir að koma í ljós. Á 79. mínútu fékk West Brom hornspyrnu sem skapaði mikinn usla í teig Liverpool og endaði það með því að Jake Livermore kom boltanum í netið og minnkaði muninn.

Eftir þetta mark vöknuðu liðsmenn West Brom og sóttu stíft næstu mínúturnar. Oliver Field fiskaði ódýra aukaspyrnu á 88. mínútu sem Chris Brunt tók og var það Salomon Rondon sem náði að skalla boltann í netið og jafna metin fyrir West Brom.

Jafntefli var lokastaðan í þessum leik og er Liverpool með 71 stig í þriðja sæti eftir þennan leik á meðan West Brom situr sem fastast á botninum með 25 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira