Lífið

Fyrsta lagið eftir árásina í Manchester

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
Ariana Grande hér á góðgerðartónleikunum, One Love, sem hún stóð fyrir eftir árásina við Manchester Arena í fyrra.
Ariana Grande hér á góðgerðartónleikunum, One Love, sem hún stóð fyrir eftir árásina við Manchester Arena í fyrra. Vísir/Getty
Ariana Grande gaf út nýtt lag, „No Tears Left to Cry“ nú undir morgun. Þetta er fyrsta lagið sem söngkonan gefur út síðan hryðjuverkamaður sprengdi sprengju fyrir utan Manchester Arena tónleikahöllina í Manchester, þar sem söngkonan hélt tónleika í maí í fyrra. Tuttugu og tveir létu lífið í árásinni.  

Lagið vísar óbeint til árásarinnar en þrautseigjan og bjartsýnin sem einkenndu góðgerðartónleikana One Love, sem hún stóð fyrir aðeins tveimur vikum eftir árásina, skín í gegn í laginu eins og kemur fram í frétt BBC um lagið.

Grande hefur verið treg til að gefa út nýja tónlist eftir árásina. Í viðtali við tímaritið Billboard á síðasta ári sagði hún tónleikaferðalagið sem hún var að klára hafa tekið verulega á tilfinningalega og hana langaði mest að halda utan um ástvini og vera heima um stund.

Söngkonan hefur ýjað að nýju lagi síðan á þriðjudag þegar hún tísti til fylgjenda sinna „saknaði ykkar“ eða „missed you“ á ensku. 

Myndband fylgdi laginu og má sjá það neðst í fréttinni. Í enda þess sést býfluga fljúga yfir skjáinn, en býflugan er tákn Manchesterborgar og því virðingarvottur við borgina og íbúa hennar. 

Fastlega má gera ráð fyrir því að lagið verði vinsælt á næstu misserum enda um kraftmikið sumarlegt lag að ræða. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×