Meistaraframmistaða City hélt WBA á lífi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gabriel Jesus var á meðal markaskorara í dag
Gabriel Jesus var á meðal markaskorara í dag Vísir/Getty

Manchester City hélt lífi í agnarsmáum vonum WBA um að halda lífi í ensku úrvalsdeildinni með stórsigri á Swansea í síðasta leik dagsins í deildinni.

Fyrir leik dagsins munaði átta stigum á West Brom og Swansea, sem situr í 17. sætinu, þegar West Brom á þrjá leiki eftir og getur því mest náð í níu stig. Sigur Swansea á nýkrýndum Englandsmeisturum hefði því bundið enda á veru Albion í úrvalsdeildinni, að minnsta kosti næsta árið.

Leikmenn City voru hins vegar ekkert á því að gera Swansea neitt auðveldara fyrir, þrátt fyrir að hafa ekki að neinu að keppa með efsta sætið öruggt. David Silva kom heimamönnum yfir eftir aðeins tólf mínútna leik. Raheem Sterling átti vel tímasett hlaup inn á sendingu Kevin de Bruyne og skilaði boltanum til Silva sem kláraði af stuttu færi.

Eftir aðeins fimm mínútur var City búið að tvöfalda forystuna og ljóst í hvað stefndi. Sterling var að þessu sinni síðasti maður í sóknarspili City og kom boltanum í netið af stuttu færi eftir sendingu Fabian Delph. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum hafði Manchester City verið með boltann 90,3 prósent leiksins. Sú tölfræði segir allt sem segja þarf um þennan leik.

Staðan var aðeins 2-0 í hálfleik en yfirburðir City voru algjörir. Liði kláraði 542 sendingar sín á milli í fyrri hálfleik, sem er met í ensku deildinni síðan tímabilið 2003-04.

Belginn Kevin de Bruyne opnaði markareikninginn í seinni hálfleik á 55. mínútu eftir að leikmenn Swansea höfðu lagst í skotgrafirnar og varist þétt eftir leikhléið. De Bruyne tók því upp á því að þruma boltanum í átt að markinu af löngu færi og boltinn söng í netinu. Glæsimark sem Lukasz Fabianski átti enga von á að stöðva.

Áfram héldu leikmenn City að stjórna leiknum, en áttu í erfiðleikum með að koma boltanum í gegnum þéttan varnarpakka Swansea. Federico Fernandez gerði sig þó sekan um mistök í vörninni þegar hann braut á Raheem Sterling og vítaspyrna var dæmd eftir um klukkutíma leik. Gabriel Jesus fór á punktinn en Fabianski varði frá honum í slánna. Þaðan datt boltinn fyrir Bernardo Silva sem kláraði í netið.

Þrátt fyrir yfirburði City átti Alfie Mawson nokkur góð tækifæri fyrir Swansea og skaut meðal annars í tréverkið, en hann uppskar ekkert fyrir erfiði sitt heldur skallaði Gabriel Jesus boltann í mark Swansea á síðustu mínútu venjulegs leiktíma eftir fyrirgjöf Yaya Toure. Lokatölur urðu 5-0 fyrir Manchester City.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.