Innlent

Umframeftirspurn eftir stofnframlögum fyrir ódýrara leiguhúsnæði

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Umframeftirspurn er eftir stofnframlögum sem ætlað er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga. Íbúðalánasjóður telur að auka þurfi fjármagn til uppbyggingar á leiguhúsnæði en uppbygging þess hefur tafist um allt að eitt ár frá því frá því ríkið fór að bjóða stofnframlög til byggingar á slíku húsnæði.

Íbúðalánasjóður annast úthlutun stofnframlaga ríkisins til kaupa eða byggingar á almennum íbúðum til útleigu. 

„Það eru hugsaðar sem leiguíbúðir fyrir tekju- og eignaminni þar sem það er lögð mikil áhersla á að leiguverð fari að jafnaði ekki yfir 25% af tekjum þeirra sem búa í eigninni,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, deildarstjóri húsnæðissviðs hjá Íbúðalánasjóði.

Frá upphafi, eða síðla árs 2016, hefur 7,3 milljörðum verið úthlutað til kaupa eða uppbyggingar 1.325 íbúða, þar af tæplega 1.200 á höfuðborgarsvæðinu, 37 á Vesturlandi, 11 á Vestfjörðum, 52 á Norðurlandi, 4 á Austurlandi og 44 á Suðurlandi. Um er að ræða Íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga, íbúðir fyrir öryrkja, sértæk búsetuúrræði fyrir fatlaða og leiguíbúðir þar sem sett eru skilyrði um tekju- og eignamörk. Mikil umframeftirspurn er eftir stofnframlögum en hingað til hefur ekki þurft að synja umsóknum um framlög á grundvelli fjárskorts.

Lagt var upp með það að markmiði að byggja 3.200 íbúðir á sjö árum en að sögn Sigrúnar hafa tafir á þeim verkefnum sem hafa fengið úthlutun numið allt að einu ári, meðal annars sökum strangra skipulagsskilmála og skorts á verktökum. Þá sé óvíst hvort fjármagn dugi til að mæta eftirspurn.

Sigrún Ásta Magnúsdóttir, deildarstjóri hjá ÍbúðalánasjóðiVísir/skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×