Enski boltinn

Mourinho setur Pogba áskorun að standa sig

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það er spurning hvort að Pogba fái að spila í dag
Það er spurning hvort að Pogba fái að spila í dag vísir/afp
Jose Mourinho segist hafa látið Paul Pogba vita af því að hann búist við ákveðnum staðli frá honum í öllum leikjum. Pogba hefur verið mjög sveiflukenndur í síðustu leikjum.

Mourinho var hæstánægður með frammistöðu Pogba í sigrinum á Manchester City fyrr í mánuðinum, enda skoraði Pogba tvö mörk og var lykilmaður í frábærri endurkomu United í seinni hálfleik.

Hann fylgdi því eftir með slæmri frammistöðu gegn WBA og svo annari frábærri frammistöðu gegn Bournemouth í vikunni.

„Ég sagði við hann eftir leikinn gegn Manchester City að ég búist ekki endilega við því að hann sé maður leiksins í hverjum leik,“ sagði Mourinho.

„Ég býst ekki við því að hann sé framúrskarandi í hverjum leik því það er mjög erfitt, en ég vil að hann haldi ákveðnum staðli. Það er áskorunin fyrir hann.“

„Hann var frábær gegn City, ekki góður á móti West Brom og svo aftur frábær gegn Bournemouth. Mér finnst hann hafa spilað betur gegn Bournemouth gegn City, hann var mun stöðugri og stjórnaði leiknum betur.“

Eftir tapið gegn WBA hótaði Mourinho því að margir leikmenn sem hefðu staðið sig illa í þeim leik fengu ekki sæti í undanúrslitum bikarsins gegn Tottenham. Flautað verður til leiks á Wembley klukkan 16:15 í dag og kemur þá í ljós hvort Mourinho standi við hótanir sínar. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×