Körfubolti

Brynjar um Helga Rafn: Ég elska hann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Rafn í leiknum í kvöld.
Helgi Rafn í leiknum í kvöld. Vísir/Bára
„Það voru sóknarfráköst og tapaðir boltar sem fóru með okkur. Það er í raun ekkert flóknara,“ sagði Brynjar Þór Björnsson, bakvörður KR, eftir leikinn í kvöld.

„Auðvitað var líka taugastríð á milli liðanna, því neita ég ekki. KR hefur áður sýnt að það getur spilað vel þegar lykilmenn vantar og það er einmitt það sem Tindastóll gerði í kvöld,“ sagði hann en Antonio Hester gat ekki spilað með Tindastóli í kvöld vegna meiðsla. „Allir náðu að bæta sig hjá Tindastóli og við vorum ekki tilbúnir í það.“

Báðum fyrstu leikjunum í rimmunni hefur nú lokið með stórsigri útiliðsins. En nú reiknar Brynjar Þór með jafnari leikjum framvegis.

Brynjar Þór Björnsson.Vísri/Bára
„Mín reynsla er að þetta muni jafnast meira út og ég reikna með því að næsti leikur verði jafn og spennandi. Við verðum að gæta samt þess að Stólarnir fari ekki svona með okkur eins og þeir gerðu í kvöld. Þeir tóku okkur á beinið og sýndu það hvað viljinn getur verið ofsalega sterkt verkfæri.“

Helgi Rafn Viggósson fór fyrir baráttuglöðum Sauðkrækingum í kvöld og Brynjar vildi gjarnan hafa hann í sínu liði. „Ég elska hann. Þetta er stríðsmaður sem allir vilja hafa með sér. Hann og Axel [Kárason] eru miklir baráttuhundar. Þeir sýndu það í kvöld og settu líka niður stór skot. Þeir unnu okkur, sem og Pétur Rúnar auðvitað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×