Erlent

Katrín lögð inn á fæðingardeild

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín hertogaynja af Cambridge.
Katrín hertogaynja af Cambridge. Vísir/AFP
Katrín, hertogaynja af Cambridge, var lögð inn á fæðingardeild St Mary‘s-sjúkrahússins í miðborg London í morgun, að því er fram kemur í frétt BBC. Hún og eiginmaður hennar, Vilhjálmur Bretaprins, eiga von á sínu þriðja barni.

Katrín hefur verið í fæðingarorlofi síðan í mars en líkt og á fyrri meðgöngum hefur hún þjáðst af hyperedemis gravidarum sem á íslensku hefur verið kallað sjúkleg morgunógleði eða sjúkleg uppköst.

Þá mun breskum fjölmiðlum berast tilkynning um fæðingu barnsins í tölvupósti, þegar þar að kemur, auk þess sem tilkynnt verður um fæðinguna á Twitter-reikningi Kensington-hallar.

Foreldrarnir vita ekki hvers kyns barnið er en eins og áður hafa veðbankar spáð fyrir um það hvaða nafn verði valið á þennan nýjasta meðlim konungsfjölskyldunnar. Nöfnin Mary, Alice, Alexandra, Elizabeth og Victoria þykja vænleg til vinnings, verði barnið stúlka, og þá eru nöfnin Albert, Frederick, James og Philip talin líkleg ef um dreng er að ræða.

Katrín og Vilhjálmur tilkynntu um þungunina í september síðastliðnum. Fyrir eiga þau börnin Georg, fæddan í júlí 2013, og Karlottu, fædda í maí 2015. Þriðja barn hjónanna verður það fimmta í erfðaröð krúnunnar.

Hér að neðan má fylgjast með beinni útsendingu fréttastofunnar Sky News frá St Mary's-sjúkrahúsinu í London.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×