Enski boltinn

Pogba: Er ekki að hugsa um að fara frá Man. Utd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Verður hann seldur í sumar? Sögusagnirnar eru enn á fleygiferð.
Verður hann seldur í sumar? Sögusagnirnar eru enn á fleygiferð. vísir/getty
Það hefur mikið gengið á hjá Paul Pogba á þessari leiktíð með Man. Utd. Það hefur heldur ekki verið neitt lát á sögusögnum í kringum hann.

Pogba hefur valdið vonbrigðum með spilamennsku sinni í vetur og hefur því á tíðum þurft að sætta sig við bekkjarsetu. Meðal annars í báðum leikjunum í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„Mourinho er þjálfarinn og tekur ákvarðanirnar. Ég er leikmaður og þarf að sætta mig við það. Það er svo mitt verk að bregðast við er ég fæ tækifæri til þess að spila,“ sagði Pogba en hann var dýrasti leikmaður heims er Man. Utd greiddi 89 milljónir punda fyrir hann árið 2016.

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, sagði að Pogba gæti ekki verið ánægður með að sitja á bekknum. Í febrúar var sagt að Pogba sæi eftir því að hafa komið til United en Mourinho sagði að það væri lygi. Pep Guardiola, stjóri Man. City, sagði svo á dögunum að honum hefði staðið til boða að kaupa leikmanninn í janúar.

„Mourinho hefur gert mig að fyrirliða. Hann gaf mér lyklana, að vera með ábyrgð hjá svona stóru félagi. Eins og stendur er ég hjá Man. Utd og er aðeins að hugsa um það sem er að gerast núna. Svo er HM. Félagaskipti er ekki eitthvað sem ég er að hugsa um núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×