Erlent

Nærbuxur Madonnu og skilnaðarbréf Tupacs á uppboð í sumar

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Dómari í New York hefur fellt úr gildi lögbann á uppboð muna sem áður voru í eigu söngkonunnar Madonnu. Meðal annars er um að ræða nærbuxur, hárlokk af höfði hennar og afar persónulegt skilnaðarbréf sem rapparinn Tupac Shakur skrifaði til að slíta ástarsambandi þeirra á sínum tíma. Í bréfinu kvartar Tupac yfir ummælum Madonnu um blökkumenn og segist ekki lengur geta verið í sambandi með hvítri konu ímyndar sinnar vegna.

Munirnir eru nú í eigu Darlene Lutz sem er listaverkasali í New York. Hún var sérstakur ráðgjafi Madonnu árum saman og aðstoðaði hana við að koma sér upp glæsilegu safni listaverka. Þeim sinnaðist hins vegar illa uppúr aldamótum og hafa ekki ræðst við lengi. Þegar Madonna frétti fyrir tveimur árum að fyrrnefndir munir yrðu boðnir upp hæstbjóðanda fóru lögfræðingar hennar fram á tímabundið lögbann sem orðið var við.

Dómarinn í málinu hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að öll deilumál Madonnu og Lutz hafi formlega verið leidd til lykta með bindandi sáttmála sem þær gerðu með sér árið 2004. Uppboðið er því aftur komið á dagskrá og búist er við að það fari fram í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×