Erlent

Fjölskylda Prince stefnir spítala sem tók við honum eftir of stóran skammt af ópíóðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Prince var afar vinsæll tónlistarmaður og fjölmörgum harmdauði.
Prince var afar vinsæll tónlistarmaður og fjölmörgum harmdauði. vísir/getty
Ættingjar bandaríska söngvarans Prince hafa ákveðið að stefna spítala sem tók við honum eftir að hann tók of stóran skammt af ópíóðum fimm dögum áður en hann lést í apríl 2016. Telja ættingjarnir að Prince hafi ekki fengið viðeigandi meðferð á spítalanum Trinity Medical Center eftir að flugvél hans nauðlenti í Moline, Illinois.

Upphaflega var greint frá því að flugvél Prince hefði nauðlent og hann lagður inn á spítala vegna þess að hann væri með flensu. Hann þurfti hins vegar að komast undir læknishendur vegna þess að hann hafði tekið inn of stóran skammt af ópíóðum.

Ekkert saknæmt átti sér stað að mati yfirvalda

Ættingjar Prince telja að andlát hans, sem rekja til of stórs skammts af ópíóðanum fentanýl, tengist beint því að hann fékk ekki viðeigandi meðferð á spítalanum fimm dögum áður. Heilbrigðisstarfsmenn hafi brugðist þegar kom að því að greina að tónlistarmaðurinn hefði tekið inn of stóran skammt og þannig ekki veitt viðeigandi meðferð.

Í liðinni viku komust yfirvöld í Minnesota að því ekkert saknæmt hafi átt sér stað í tengslum við dauða Prince. Saksóknarar telja að of stóri skammturinn sem hann tók fimm dögum áður en hann lést hafi verið vegna lyfsins Vicodin sem inniheldur fentanýl, lyfið sem dró Prince svo til dauða. Í báðum tilfellum er um lyfseðilsskyld lyf að ræða, svokallað læknadóp.



Neitaði að fara í blóðprufu á spítalanum

Í yfirlýsingu sem fjölskylda Prince sendi frá sér segir að það sem hafi gerst fyrir tónlistarmanninn sé að gerast fyrir fjölskyldur úti um öll Bandaríkin, en fjöldi fólks hefur ánetjast lyfseðisskyldum lyfjum í landinu síðastliðin ár með tilheyrandi dauðsföllum.

Stefnunni er beint gegn spítalanum, dótturfélögum hans sem og lækninum sem meðhöndlaði Prince. Sagt er að tónlistarmaðurinn hafi bæði neitað því að fara í blóðprufu sem og að skila þvagsýni þar sem hann vildi leyna því að hann væri háður læknadópi. Þá stefnir fjölskyldan einnig apótekinu Walgreens fyrir að dreifa lyfjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×